145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er flóknari spurning en ég treysti mér til þess að svara mjög ítarlega á tveimur mínútum og jafnvel þótt fleiri væru.

Ég er almennt ekki mjög trúaður á að hægt sé að ætlast til þess af fjármálastofnunum að þær sinni félagslegu hlutverki nema það félagslega hlutverk sé mjög vel afmarkað, mjög skýrt og það sé mjög skýrt og virkt eftirlit með því og það sé hluti af rótarhlutverki stofnunarinnar.

Ástæðan fyrir því að ég er hrifinn af hugmynd hv. þm. Frosta Sigurjónssonar er ekki sú að ég telji þá stofnun endilega góða til þess að standa að einhverjum félagslegum verkefnum, hugsanlega er hún það en það er ekki ástæðan fyrir því að ég hlusta á hana eða ímynda mér að hún gæti verið góð, heldur til þess að tryggja samkeppni á markaðnum, til þess að tryggja samkeppni á bankamarkaðnum. Það er það helsta sem vakir fyrir mér.

En í grunninn í nógu stóru hagkerfi sem virkaði nógu vel væri ég ekki hlynntur því að vera með ríkisbanka yfir höfuð. Mér finnst það mjög vond lausn í sjálfu sér. Þess vegna finnst mér óþægilegt, í það minnsta alveg strax, að styðja lausnir með bankakerfinu til þess að fara í félagslegar lausnir. Miklu frekar vil ég leysa þannig vandamál með mun einfaldari hætti án þess að blanda bankakerfinu inn í það, einfaldlega með ríkisstyrkjum eða með því að efla sjálfstæði sveitarfélaganna eða láta landsbyggðarhlutana og sveitarfélögin njóta meira góðs af skatttekjunum sem verða til þar.

Þannig lausnum hef ég miklu meiri áhuga á til þess að leysa þau vandamál. En að láta banka sem í eðli sínu er gróðastofnun leysa samfélagsleg vandamál, ég er ekki sannfærður um að það sé það auðvelt að það borgi sig. Það er hugsanlegt og kannski hef ég rangt fyrir mér, en ég er ekki sannfærður um það eins og er.