145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér er ekki ljóst nákvæmlega hvaða samfélagsleg hlutverk hv. þingmaður á við. Ef hv. þingmaður er að hugsa um eitthvað eins og að þjónustan sé til staðar annars staðar en á stór-höfuðborgarsvæðinu eða í dreifðari byggðum eða eitthvað því um líkt þá mundi ég leiða líkur að því að skynsamlegra væri að slíkar bankastofnanir, sem yrðu auðvitað bara sparisjóðir þegar allt kemur til alls, ef ég skil rétt sem ég er ekkert viss um að ég geri, yrðu einhvern veginn tengdar þeim landshlutum eða þeim svæðum.

Mér er almennt mjög illa við að verið sé að miðstýra hlutum úr Reykjavík. Mér finnst miklu snyrtilegri lausn ef markmiðið er að tryggja uppbyggingu á dreifðari svæðum landsins að verðmætin komi þaðan. Við vitum að þar eru verðmæti. Þau fara til Reykjavíkur og þeim er útdeilt hérna, á hinu háa Alþingi í 101 Reykjavík, eða 150 reyndar ef út í það er farið.

Ég sé ekki alveg ástæðu til að blanda þessu tvennu saman. Ef við erum með samfélagsbanka, ef við gerum Landsbankann að samfélagsbanka með skilgreind samfélagsleg markmið þykir mér það ekki í eðli sínu slæmt ef hægt er að tryggja að hann geti sinnt þeim, ef eftirlitið er nógu virkt og ef það er ekki á þeim forsendum að breyta lánastarfsemi í einhvers konar góðgerðarstarfsemi, vegna þess að góðgerðarstarfsemi á bara að vera góðgerðarstarfsemi.

En það að ætla að veita lán sérstaklega sem eru í eðli sínu óhagstæð, það er ákveðin freisting að það eigi sér stað og það er ekki góð hugmynd. Sú hugmynd átti sinn þátt í hruninu 2008, þ.e. íbúðafyrirbærinu öllu í Bandaríkjunum. Þar töldu menn sig hafa fundið upp leið til þess að búa til lán sem einfaldlega stóðust ekki. Það kom í ljós að þau stóðust ekki og allt hrundi. (Forseti hringir.) Það er engin ókeypis leið út úr þessu og ég sé ekki alveg ástæðu til þess í fljótu bragði að blanda bankastarfsemi saman við samfélagsleg markmið. En að því sögðu, ef slíkar leiðir eru til er ég vissulega til í að skoða þær. Ég vil alls ekki útiloka þær.