145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:43]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er margt í fjárlagafrumvarpinu sem bendir til þess að menn séu annaðhvort búnir að gleyma sögunni eða þá í miðjum klíðum við það að tryggja að almenningur geri það. Hér er verið að endurtaka þann leik sem leikinn var í aðdraganda hrunsins þar sem menn kepptust við að reyna að draga úr öllu regluverki eins og það væri gríðarlega alvarlegt og íþyngjandi og þyrfti að passa upp á að það væri helst sem allra minnst. Á því sviði og mörgum öðrum eru menn að reyna að endurtaka þá ömurlegu sögu.

Það er líka umhugsunarefni hvernig menn umgangast Ríkisútvarpið og hvernig menn umgangast heilbrigðiskerfið. Það er engu líkara en að menn séu að reyna að sanna einhvern punkt, reyna að draga þannig úr afli þessara stofnana að þær missi fótanna, þær missi flugið. Maður sá til dæmis hvernig var gerð raunveruleg atlaga að Ríkisútvarpinu með skýrslu sem starfshópur undir forustu Eyþórs Arnalds, innanbúðarmanns í Sjálfstæðisflokknum, vann núna í haust. Það var ekkert annað en vandlega undirbúin atburðarás og atlaga að stofnuninni þar sem með mjög ósanngjörnum hætti voru dregnar fram einhverjar tölur sem áttu að sýna fram á að það ætti með einhverju öðru lagi, með einkaframtakinu, að reka stofnunina á miklu hagkvæmari hátt. En þegar menn fóru að rýna í þetta þá voru tölurnar fullkomlega ósambærilegar og alls konar veigamiklum atriðum var búið að sleppa og stinga undir stól og horfa fram hjá til að þetta kæmi nú allt örugglega sem allra verst út fyrir ríkisreksturinn.

Ef menn vilja breyta til í þessum efnum, þá eiga þeir auðvitað að vera nógu heiðarlegir til að segja það, koma fram með þá stefnu og reyna að láta kjósa sig með þá stefnu.