145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:52]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim vandamálum sem menn stóðu frammi fyrir 2009 en engu að síður var svo margt í fjármálastjórn síðustu ríkisstjórnar sem benti ekki til þess að menn hefðu sérstaklega mikinn áhuga á því að forgangsraða í þágu þessara stofnana eins og spítalans og lífeyrisþega.

Vissulega hefur hagvöxtur aukist en hvað hefur þessi ríkisstjórn líka bætt í raunverulega? Hvað hefur verið bætt miklu í Landspítalann á þessum þremur árum? Það eru rúmlega 30%. Svo koma menn og halda því fram að við séum ekkert að gera. Hver hefur kaupmáttaraukning lífeyrisþeganna verið? Það er augljóst að ríkisstjórnin hefur verið að forgangsraða í þessa þágu og látið önnur mikilvæg verkefni bíða. Menn geta ekki haldið neinu öðru fram. Þetta er bara veruleikinn. Og að koma svo hingað og saka aðra um — að vísu var hv. þingmaður ekki á staðnum þá — siðleysi og mannvonsku, ég hefði haft miklu meiri áhyggjur af þeirri orðræðu en einhverri blaðagrein forsætisráðherra.