145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:54]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað átakanlegt fyrir hv. þingmenn Brynjar Níelsson og Óla Björn Kárason að tala um árin 2009 og 2010 í íslenskri stjórnmálasögu og hagstjórn vegna þess að það sem gerðist þá kollvarpar öllum kenningum hægri manna um hagstjórn vinstri manna, að þeir séu gersamlega ófærir um niðurskurð, þeir séu gersamlega ófærir um að sýna aðhald í ríkisrekstri. Það sem gerðist eftir að menn þurftu að skera niður um rúmlega 100 milljarða var að á árinu 2010 var hagvöxtur, ári síðar. (BN: Hann var nú ekki …) Engu að síður var það hagvöxtur, hv. þingmaður, þú getur ekki neitað því — hv. þingmaður getur ekki neitað því, svo ég leiðrétti mál mitt, virðulegi forseti, og ávarpi þingmenn ekki beint. Þannig var það. Það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir hv. þingmenn að horfa framan í það en þannig er það engu að síður og það er út af ákvörðunum sem teknar voru á þessum tíma og það er út af því aðhaldi sem þá var sýnt sem menn eru í þeirri stöðu sem þeir eru í í dag. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Því miður er það þannig að sá meiri hluti sem hér er við völd núna er að spilla þessu öllu með kæruleysi og lélegum vinnubrögðum.