145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:39]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á bls. 71 og 72 í fylgiskjali fjárlagafrumvarpsins, í Stefnu og horfum, má sjá að boðaðar skattalækkanir og áætlaðar skattalækkanir inn í framtíðina skipta tugum milljarða króna. Uppsafnað, þ.e. með þeim breytingum sem fyrirætlaðar eru núna auk þeirra breytinga sem þegar hefur verið ráðist í, ég held bankaskattinum þar fyrir utan, þá erum við að tala um skattalækkanir eða nettóniðurstöðu upp á 15 milljarða á árinu 2015, 25 milljarða á árinu 2016, 30 milljarða 2017 og svo árin þar á eftir minni tekjur.

Það má líka sjá í þessu skjali að frumtekjurnar, þ.e. það sem við eigum eftir af rekstrinum til að borga af lánum og vöxtum, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eru farnar ofan í 27%. (Forseti hringir.) Það þýðir aftur að frumútgjöldin (Forseti hringir.) sem eru ætluð til rekstrar á innviðum samfélagsins verða þar fyrir neðan. Þar með erum við komin 3–4% undir aðrar Norðurlandaþjóðir (Forseti hringir.) og erum farin að nálgast lönd sem við höfum aldrei borið okkur saman við áður.