145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili undrun þingmannsins á ákvörðunum ríkisstjórnarinnar þegar kemur að tekjuöflun og skil ekki sumar ákvarðanirnar, eins og hv. þingmaður hefur rakið ágætlega og gerði í ræðu sinni. Það er þó einn tekjustofn sem ég hef alltaf verið á báðum áttum með, sem er auðlegðarskatturinn. Ríkisstjórn síðasta kjörtímabils setti auðlegðarskattinn á tímabundið og það kom fljótt í ljós að hann hafði ýmsar óréttlátar hliðar. Menn töluðu um ekkjur sem ættu stór hús en hefðu litlar tekjur og lentu allt í einu í því að borga mjög mikinn skatt sem þær áttu ekki fyrir.

Ég deili áhyggjum þingmannsins af því að auður sé að safnast á fárra hendur, (Forseti hringir.) en sér hann fyrir sér að hægt sé að hanna auðlegðarskattinn þannig að hann hafi ekki þessa óréttlátu (Forseti hringir.) hliðarverkun og setjist þungt á fólk sem á miklar eigur en hefur litlar tekjur?