145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá þingmanninum að breytingartillögu er að vænta frá meiri hluta fjárlaganefndar, sem lýtur að verulegum útgjöldum af þessu tilefni. Það dregur fram mistökin, þ.e. prentvilluna, enn frekar þegar að ákveðnum þáttum kemur, eins og fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga eða ákvörðunum um kauphækkanir opinberra starfsmanna eða þeirra sem falla undir kjararáð, því að þá þykir sjálfsagt að ríkissjóður leggi til þann kostnað sem af því hlýst. Það er afgreitt umyrðalaust og umræðulaust í gegnum þingið og stimplað. En þegar á að hækka með sama hætti bætur aldraðra og öryrkja eru allt í einu ekki til peningar, þá er því ekki bara rennt í gegn og stimplað, þá þarf að fara og fjármagna það sérstaklega, sem þarf ekki þegar verið er að borga afturvirkar kauphækkanir fyrir okkur, (Forseti hringir.) opinbera starfsmenn eða samninga við sveitarfélögin.