145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:54]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við erum ekki sammála varðandi ferðamanninn. Hann er vissulega verðnæmur gagnvart fluginu en það er fleira sem vegur í ákvörðunum hans þegar kemur að því hvert á að ferðast um heiminn. Lággjaldaflugfargjöldin hafa breytt þessu þannig að á leiðinni út á völl, með alla þessa möguleika um heiminn, þá hjálpar sterk króna okkur vissulega en kjarnaþjónustan þó einna helst.

Varðandi tekjuskattinn þá ætla ég að draga það fram að Gini-stuðullinn, sem er vissulega vísbending en ekki algildur mælikvarði, hefur lækkað hér og tekjujöfnunin hefur í raun og veru aldrei verið meiri og óvíða meiri í Evrópu. Það hlýtur að vera vísbending um að við séum á réttri leið með skattkerfið.