145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:57]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er gaman að fá að koma hingað upp öðru sinni og ræða fjárlögin fyrir 2016, enda hefur margt nýtt komið í ljós á þeim 40 klukkustundum sem við höfum eytt í þessum þingsal í að ræða þetta mikilvæga mál.

Eitt sem ég hef tekið eftir varðandi málflutning hér er að það er eins og hrunið hafi aldrei gerst, að orsakir og aðdragandi hrunsins sem átti sér stað hér 2008 hafi aldrei komið fyrir. Að sama skapi er mjög áhugavert, þegar maður hefur lesið rannsóknarskýrslur sem fjalla um bankahrunið og aðdraganda þess, að það er eins og draugur hrunsins svífi yfir vötnum í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar þegar kemur að ýmsum liðum, sér í lagi liðnum um íþyngjandi löggjöf og mér líkar ekki það sem hægt er að lesa úr þeim kafla. Þetta rímar við það sem var á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins 1996, þá fyrst, að það þyrfti að auðvelda bönkum og atvinnufyrirtækjum með því að koma í veg fyrir að löggjöf væri of íþyngjandi. Þetta var lengi vel hluti af stefnu Sjálfstæðisflokksins í hinni svokölluðu nýfrjálshyggju, þ.e. að íþyngjandi löggjöf, eftirlitsiðnaðurinn, væri slæm.

Það kom svo á daginn að út af hugmyndafræðinni um að stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið ættu ekki að vera neitt sérstaklega valdamiklar í samfélaginu gátum við ekki haft nógu gott eftirlit með bönkunum okkar. Fjármálaeftirlitið hafði engin teljandi völd til að beita sér gegn þeim ógnarvexti sem varð í íslenska bankakerfinu frá því að allir bankarnir voru einkavæddir á svo gott sem einu bretti árin 2001–2003.

Það er mjög áhugavert í þessu samhengi líka að minnast þess að krónan var sett á flot sem var forsendan fyrir því að selja bankana svo þeir gætu hafið útrás. Krónan hefur bara fengið að vera sjö ár á floti af þeim 140, eða svo, sem hún hefur verið til. Hún er mikið skaðræði fyrir íslenskan efnahag, verð ég að segja. Það er sjálfsagt bara mat mitt en svo virðist sem íslenska krónan komi íslenskum efnahag ekkert sérstaklega vel.

Þegar ég hélt fyrri ræðu mína var álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2014 ekki komið fram. Í nefndaráliti meiri hlutans er sérstaklega tekið fram að útgjöld til umboðsmanns Alþingis hafi frá 2007 til 2016 hækkað um 100%. Í nefndarálitinu stendur, með leyfi forseta:

„Einnig er nauðsynlegt að ekki sé stofnað til eftirlits nema ávinningurinn sé meiri en sá kostnaður eða óhagræði sem það hefur í för með sér. Opinbert eftirlit þarf að vera þrepaskipt og umfang þess verður að taka mið af þeirri áhættu sem um er að ræða í hverju tilfelli.“

Það er hægt að lesa ýmislegt á milli línanna, en kannski er það bara mín túlkun á því sem stendur. Það er mjög athyglisvert að sjá hvernig talað er um bæði Fjármálaeftirlitið og umboðsmann Alþingis í þessu nefndaráliti og það rímar svolítið við það sem var í umræðunni á tíunda áratug síðustu aldar og á fyrsta áratug 21. aldar þegar ég var að alast upp vestur á Seltjarnarnesi. Ekki er ég gömul en þetta er sú nýfrjálshyggja sem maður er búinn að læra. Kannski er það af því að ég er að læra þetta eftir á. Ég var ekki í þessari orðræðu eins og margir hér, en þessi orðræða skín mjög mikið í gegn og það hryllir mig svolítið.

Þegar kemur að umboðsmanni Alþingis vekur sérstaka athygli að í breytingartillögu á gjaldahlið frá meiri hlutanum er gerð tillaga um að minnka framlag til umboðsmanns Alþingis um 13 milljónir þar sem nú sé embættið flutt í Þórshamar sem er í eigu ríkisins og þá hafi embættið hætt að leigja. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að koma til móts við annan rekstrarkostnað sem umboðsmaður Alþingis þarf að standa straum af þar sem öryggisgæsla, fasteignagjöld, mötuneytiskostnaður og til dæmis heitt vatn er allt í einu komið á könnu forstöðumanns stofnunarinnar sem þarf að greiða það. Þetta eru allt saman liðir sem voru annaðhvort mun lægri eða ekki til staðar þegar umboðsmaður Alþingis var í leiguhúsnæði. Það þarf að koma til móts við þessa mikilvægu eftirlitsstofnun sem hefur sannað sig í íslensku samfélagi. Til hennar er borið mikið traust. Það þarf að koma til móts við hana til að hún sé fjárhagslega sjálfstæð og óháð og þurfi ekki að vera að berjast við fjárveitingavaldið um að lifa af næsta vetur. Það er algjörlega fyrir neðan allar hellur.

Umboðsmaður Alþingis hefur staðið sig mjög vel undanfarin ár en málafjöldinn hefur farið úr 300 upp í 500 á ári. Samkvæmt áliti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er þetta bara skýr vitnisburður um það traust sem umboðsmaður nýtur og aukna réttarvitund. Það er margt sem umboðsmaður Alþingis þarf nefnilega að sinna. Það er ekki bara það að taka á móti kvörtunum og vinna úr þeim. Fræðsluefni fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar var afgreitt fyrir fjárlögin fyrir árið 2013 en umboðsmaður hefur ekki komist í það sökum anna. Það var einmitt gert til að starfsfólk stjórnsýslunnar skildi betur sitt siðferðislega hlutverk í þessu öllu saman.

Umboðsmaður vakti athygli á því og það er kannski meginpunktur minn hér að frumkvæðismálum hefði fækkað verulega síðustu ár vegna aukins málafjölda og álags hjá embættinu. Ekkert slíkt mál hefur formlega verið tekið fyrir á þessu ári og einungis einu máli er verið að ljúka. Það er mikilvægt að umboðsmaður hafi tök á og hafi fjárhagslegt svigrúm til að ráða starfsmann eða vera með nógu mikið fjárhagslegt sjálfstæði til að geta sinnt þessum frumkvæðisrannsóknum. Starfsemi umboðsmanns er mikilvægur öryggisventill. Hann hefur ákveðinni frumkvæðisskyldu að gegna en þegar honum er svo þröngur stakkur skorinn að hann geti ekki sinnt þessu erum við að veikja valdsvið og eftirlitshlutverk umboðsmanns Alþingis töluvert. Umboðsmaður hefur sjálfur sagt, og það er ein af breytingartillögum okkar í minni hlutanum, að það þurfi um 15 milljónir í aukafjárveitingu sem yrði notuð í frumkvæðisathugun. Það er mjög mikilvægt að þar sem verið er að skera niður hjá embættinu um 13 milljónir verði það dregið til baka. Algjörlega óháð því þurfum við að sjá til þess að umboðsmaður fái aukalega 15 milljónir til að sinna þessum frumkvæðisathugunum. Það er mjög mikilvægt þar sem hann gegnir því mikilvæga hlutverki að auka réttaröryggi borgaranna og það er grundvallaratriði að embættið fái fjárveitingu til að geta sinnt þessu mikilvæga verkefni.

Það er athyglisvert að í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er eftirfarandi sérstaklega tekið fram, með leyfi forseta:

„Embætti umboðsmanns Alþingis nýtur trausts og leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að þannig sé búið að embættinu að því sé gert kleift að starfa faglega og sinna þeim lögbundnu verkefnum sem því eru falin. Í því sambandi var rætt um samhengi fjárveitinga til umboðsmanns og stöðu framkvæmdarvaldsins í tengslum við frumkvæðisathugun á lekamálinu svokallaða sem hafði grundvallaráhrif í stjórnsýslunni. […] Nefndin tekur því fram að það er grundvallaratriði að umboðsmaður fái nægilegt fjármagn til að sinna lögbundnum verkefnum sínum með þeim hætti sem hann telur fullnægjandi.“

Það er mikilvægt að umboðsmaður haldi áfram að vera sá öryggisventill sem hann er fyrir borgarana. Eins og hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ítrekar er skylda stjórnvalda að veita umboðsmanni það fjárhagslega öryggi sem hann þarf til að geta stundað þetta eftirlit. Það eru mjög alvarleg pólitísk skilaboð þegar farið er að skera niður hjá þessu embætti án þess að taka tillit til heildarmyndarinnar. Þar að auki er líka algjörlega nauðsynlegt að embættið fái þessar 15 milljónir til að geta staðið straum af frumkvæðisathugunum.

Í skýrslunni er einnig afgreiðslutíminn nefndur og það beinist kannski sérstaklega að þeirri breytingartillögu sem ég legg fram í mínu eigin nafni varðandi úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Umboðsmaður Alþingis gerir miklar athugasemdir við málshraðann hjá þessari nefnd en það tekur hana um 200 daga að skila af sér. Með leyfi forseta:

„Nefndin telur það ámælisvert og nauðsynlegt að tryggja nægt fjármagn til að stytta megi afgreiðslutíma nefndarinnar þannig að fjölmiðlar geti veitt stjórnvöldum raunverulegt aðhald á hverjum tíma.“

Þarna erum við ekki að tala um stórar fjárhæðir. Það þarf að veita þessari úrskurðarnefnd um 5 milljónir til að geta stytt þennan hala töluvert og það er um það bil jafn mikið og gert er ráð fyrir til Biblíufélagsins sem ég hef ekki enn fengið ásættanlegar útskýringar á af hverju fær 4 milljónir. Það er sagt að það sé vegna 200 ára afmælis Biblíufélagsins en ég er ekki viss um að Biblíufélagið sé hið sama og Hið íslenska biblíufélag. Ég er mikil áhugamanneskja um biblíur, þá sérstaklega þýðingar á gömlum biblíum, þannig að mér þykir þetta ágætismál þannig lagað séð en þetta er náttúrlega líka spurning um forgangsröðun. Það verður að segja það að forgangsröðunin í þessum fjárlögum er býsna skrýtin. Það er til dæmis ekki verið að sinna mikilvægum og brýnum málefnum sem eru á borði umboðsmanns Alþingis en hins vegar verið að veita áhugamannafélögum um biblíur 4 milljónir. Mér þykir það ankannalegt og ég væri til í að sjá breytingar á þessu, einfaldlega af því að Biblíufélagið gæti til dæmis verið fjármagnað af kirkjunni sem er tiltölulega vel stödd í samfélaginu. Hún fær alveg gífurlega miklar tekjur af skattpeningum fólks sem og önnur kristin trúfélög sem nota Biblíuna. Það væri kannski fínt að taka þennan lið út og skipta honum út fyrir eitthvað aðeins þarfara.

Annað sem vakti undrun mína og hefur vakið undrun margra annarra er heimildin til að selja Þjóðskjalasafnið. Það kom fram að þetta er bara heimild en vekur samt upp svolítinn óhug og sýnir kannski hvað það er mikil óreiða við gerð fjárlaganna. Það er bara verið að reyna að tína eitthvað til. Það er hins vegar alveg rétt sem hefur komið fram hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Þjóðskjalasafnið er í gamalli ostaverksmiðju. Þegar við ákveðum að geyma skjöl erum við ekkert að flytja þau hægri vinstri af því bara. Það er uppskrift að því að týna skjölum og þannig hefur til dæmis hið norska konunglega skjalasafn að miklu leyti týnst. Hið sama má segja um hið danska þannig að þegar litið er til sögunnar er mjög hættulegt að færa skjöl af því að þá týnast þau. Það eru alveg dæmi um það. Ég veit ekki hvort ég á að kalla þetta hugsunarleysi eða skilningsleysi, eða kannski sjá menn sér bara leik á borði þar sem þetta er verðmætara land en var áður. Það er ekki verið að horfa á heildarmyndina hér frekar en áður.

Við erum búin að vera að ræða ferðamenn og að þeir borgi sem njóta. Mér þykir svo auðveld leið til að fá einhverja niðurstöðu í þetta. Hún er sú að breyta gistináttagjaldinu í prósentutölu. Það væri kannski fyrsta leiðin. Mér skilst að gistináttagjaldið sé núna hundraðkall eða svo, það er samt 70 evrusent eða 50 pens, það er ekki neitt neitt, það er ábyggilega lægsta gistináttagjald sem ég veit um. Með því að breyta gjaldinu í lága og sæta prósentutölu gætum við komist að skyndilegri niðurstöðu. Að sama skapi ætti að gefa sveitarfélögunum leyfi til að innheimta borgarskatt sem er auðvitað eingreiðsluskattur sem mundi renna beint til sveitarfélaganna þar sem útgjöld sveitarfélaganna hafa aukist, ekki síst vegna aukins straums ferðamanna en einnig vegna þess að á undanförnum árum höfum við sett fleiri skyldur á herðar sveitarfélaganna. Þar má nefna ýmsar heilbrigðisstofnanir sem eru núna reknar oft með 100 millj. kr. tapi og deilan kringum það allt saman kristallar deiluna sem er alltaf í gangi á Íslandi, ríkið á móti heimafólki. Maður sér það úti um allt. Það skiptir ekki máli hvort maður fer í Garðabæinn eða til Vestfjarða, það er einhvern veginn alltaf togstreita um peninga og hver getur gert betur. Þegar við erum að tala um heilbrigðisstofnanir sem hlúa að gömlu eða veiku fólki á ekki að skipta máli á hvers vegum stofnunin er, heldur bara að niðurstaðan verði góð, heilbrigð og skynsamleg. Ef ríkið þarf að veita þessum málaflokkum meiri fjárhæðir þarf ríkið að verða við því. Á sama tíma og útgjöld sveitarfélaga hafa aukist er mikilvægt fyrir okkur sem löggjafa á Íslandi, og þá sem búa til lög og reglur og leyfa sveitarfélögum að innheimta gjöld og skatta og því um líkt, að gefa þeim fleiri tekjustofna. Ég held að einn af þeim tekjustofnum gæti verið borgarskatturinn eða þá hlutdeild í gistináttagjaldi. Mér þykir það eðlilegt.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að sinni. Ég vona að það hafi verið að minnsta kosti upplýsandi um bæði úrskurðarnefndina og stöðu umboðsmanns Alþingis. Þetta tvennt er mjög mikilvægt, það ber að hlúa að þessum nefndum og embættum og ég vona svo innilega að þingmenn meiri hlutans og minni hlutans taki undir það.