145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:19]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg sjálfsagt að benda á nokkur mál sem umboðsmaður Alþingis hefur haft frumkvæðisrétt á. Þá er náttúrlega skemmst að minnast lekamálsins svokallaða, sú frumkvæðisrannsókn hófst hjá umboðsmanni Alþingis. Ég held að það hafi verið eina málið sem fór þar í gegn á því ári.

Einnig segir í áliti frá hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, með leyfi forseta:

„Nokkur frumkvæðismál bíða afgreiðslu hjá embættinu, t.d. mál sem tengist ágreiningi um viðskipti með tiltekna eignarhluta sem Orkuveita Reykjavíkur fór með en sveitarfélögin eiga.“

Það er því ýmislegt sem er verið að gera og umboðsmaður hefur áhuga á að kanna betur. Sömuleiðis er hann byrjaður að senda forathugunarbréf. Embættið sendi 18 slík bréf á síðasta ári. Þetta eru allt saman bréf sem eru forkönnunarmál og hugsuð sem ákveðin forvarnaaðgerð svo að það þurfi ekki að koma til frumkvæðismáls. Umboðsmaður Alþingis er þannig staddur að hann er að reyna að fyrirbyggja að frumkvæðismál verði tekin upp vegna þess einfaldlega að hann hefur ekki fjármuni til þess. Í staðinn er hann búinn að búa til ákveðið ferli til að vara fólk við, til að gefa því í raun gula spjaldið, að það þurfi að breyta vinnubrögðum, annars komi til frumkvæðisrannsóknar. Það er rosalega alvarlegt í sjálfu sér að við búum ekki betur að þessu mikilvæga embætti.