145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það er akkúrat þetta sem þarf að gera. Gjarnan er verið að tala um að margir taki of mikið til sín og það er kannski þetta sem við þurfum stundum til að koma málum á réttan kjöl. Umboðsmaður telur sig geta, eins og hv. þingmaður var að benda á, með því að fara í svona vinnu, sent forathugunarbréf út en slíkar forvarnaaðgerðir verða til þess að málin verða ekki þung hjá honum eða annars staðar. Það kemur einmitt hérna fram að það vanti 15 millj. kr. aukafjárveitingu til að hann geti sinnt frumkvæðismálum sem heitið getur.

Mér finnst líka athyglisvert, eins og kemur fram í þessu nefndaráliti, það sem varðaði bótaskyldu Landspítalans. Það var talað um að málið væri fyrnt, ríkislögmaður hafnaði því, en af því að það fór svo í gegnum ferli umboðsmanns þá snerist málið við og bótaskyld háttsemi var bætt.

Ég tek undir að við flest treystum umboðsmanni Alþingis og við eigum að styrkja stoðir embættisins. Þetta er eitt af því sem við eigum að standa vörð um gagnvart okkur öllum og gagnvart landsmönnum sem geta leitað þangað því að það er oft síðasta úrræðið sem fólk hefur. Það koma líka fram ábendingar til okkar sem löggjafarvalds, finnst mér.

Mig langaði alveg í restina, af því að hv. þingmaður talaði um allt annað, m.a. gistináttagjaldið og „city tax“-hugmyndir, að spyrja hvernig henni litist á þær hugmyndir. Það hefur aðeins komið fram í samtölum við sveitarfélög, þegar þau hafa verið að velta fyrir sér tekjustofnum, hvernig hægt er að fara yfir það, hvort það kæmi til greina að þau fengju einhverja hlutdeild í virðisaukaskatti, ekki bara „city tax“ því að (Forseti hringir.) það kemur misjafnlega niður á sveitarfélögunum.