145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:24]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar og einnig spurninguna. Varðandi virðisaukaskattinn þá þykir mér alveg þess virði að athuga hvernig staðið er að því og hvernig best væri að skipta virðisaukaskattinum með sveitarfélögunum. Staðan er orðin þannig, víðs vegar úti á landi sérstaklega, einfaldlega út af því að margir keyra til vinnu úr einu sveitarfélagi en stunda vinnu í öðru og þá eru engar útsvarsgreiðslur fyrir vegi eða þjónustu sem er notuð í því sveitarfélagi. Það er alveg þess virði að skoða eitthvað slíkt. Ég tek undir þannig pælingar, það er alveg sjálfsagt. Hins vegar veit ég ekki nákvæmlega hvernig best væri að komast að einhverri niðurstöðu þar um. Það væri náttúrlega alltaf pólitísk ákvörðun. Þetta yrði mikilvægt skref í að brúa bilið og brúa í raun og veru þá gjá sem er á milli Alþingis sem löggjafa og sveitarfélaga, hvernig stjórnsýslunni er háttað þar á milli. Það er mín tilfinning. Nú er ég frekar ung og óreynd í pólitík en það virðist vera mikið ósætti milli þeirra sem stunda sveitarstjórnarpólitík og eru í borgarráði og því um líku varðandi það hvernig Alþingi hagar sér sem löggjafi. Það er oft verið að tala um að skila málaflokkum út af því að sveitarfélögin telja sig ekki hafa nógu mikla tekjustofna til að geta sinnt þeim. Það er náttúrlega mjög alvarlegt mál ef Alþingi gengur svo langt á sveitarfélögin að þau geta ekki starfað samkvæmt settum lögum og vilja hreinlega hætta og skila málaflokkum. Það er mjög alvarlegt.