145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu á heimspekilegum nótum, sem var töluð frá hjartanu. Hún er þörf áminning til okkar allra. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í það að á síðasta kjörtímabili voru margar ákvarðanir teknar sem voru ekki til vinsælda fallnar, um niðurskurð og ýmislegt sem var mjög erfitt. Þingmenn í þeim meiri hluta þá stóðu að þeim erfiðu ákvörðunum með það að leiðarljósi að þær mundu leiða til þess að betri tímar kæmu og við gætum gert betur við hópa eins og aldraða og öryrkja og annað sem hafði þurft að skera niður hjá sökum hrunsins.

Nú standa menn í raun frammi fyrir þeim lúxusvanda að forgangsraða. Nú eru þingmenn í þessari stöðu: Eiga þeir að forgangsraða í þágu aldraðra og öryrkja eða þeirra efnameiri í þjóðfélaginu? Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess (Forseti hringir.) þegar kemur að því að taka uppskeruna upp hvernig eigi að skipta henni.