145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:19]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt af því sem manni svíður svolítið er að verið sé að þrengja að barnafjölskyldum og lækka fæðingarorlofið. Það var sett á síðasta kjörtímabili, ef ég man rétt, stefna í þá átt að lengja fæðingarorlofið upp í eitt ár sem ég held að við ættum að setja okkur sem markmið og gera það þannig úr garði að við getum gefið foreldrum kost á því að vera eitt ár eða skipta tímanum á milli sín. Það hefur komið í ljós á síðustu árum að feður nýta ekki fæðingarorlofsréttinn. Skerðingin gerir það að verkum að þeir geta það ekki og vilja það ekki, sem er mjög slæmt vegna þess að þetta er einn mikilvægasti tími barnsins. Það vita náttúrlega allir. Við eigum að marka okkur stefnu. Það er eitt af því sem ég er að tala um. Af hverju vinnum við ekki saman að þessu? Það er reyndar verið að tala um það í velferðarnefnd að vinna verulega í fæðingarorlofsmálum og öllu sem viðkemur fæðingum. Við erum með ágætislöggjöf en þurfum aðeins að bæta ýmsa vankanta á henni og gera þetta þannig úr garði að það sé sómi að eins og annars staðar á Norðurlöndum, til dæmis.