145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:20]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Samkvæmt dagskrá þingsins er 2. umr. um fjárlög. Hér hlustaði ég á lengstu ræðu um störf þingsins sem ég hef hlustað á síðan ég byrjaði á þingi. (Gripið fram í: Til hamingju með það.) En mér þykir alveg sérstaklega vænt um hv. þm. Pál Val Björnsson, hann hefur gott hjarta og vill öllum vel. Hann dettur samt í þann pytt, eins og margir gera, að tala eins og hér sé allt bara einhvern veginn ómögulegt. Hér er ekki nóg að gert í þessu, ekki í málefnum fatlaðra, öryrkja, fangelsismálum, fæðingarorlofinu og öllu saman. Það er eins og menn haldi að allt sé bara gjörbreytt á skömmum tíma. Þótt aðstæður séu auðvitað að breytast mjög til batnaðar skuldar ríkið enn þá tæpa 1.500 milljarða. Við erum hér með fjárlög með mjög litlum afgangi og það eru nefnilega almannahagsmunir að ríkissjóður sé vel rekinn (Forseti hringir.) og það eru líka almannahagsmunir að fyrirtækin fái að blómstra.