145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:25]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni kröftuga ræðu. Hann fór um víðan völl og talaði frá hjartanu. Hann kom inn á margt í ræðu sinni og talaði um ganginn í þjóðfélaginu. Ég hafði á köflum á tilfinningunni að hv. þingmaður væri sjálfur óviss um hver staðan væri raunverulega og hvort við værum á réttri leið með fjárlögunum þessa ferðina eður ei. Ég veit að hv. þingmaður er í grunninn og í hjarta sínu félagshyggjumaður. Gott ef ég heyrði ekki hv. þingmann tala mikið um samvinnu og jafnvel að manngildi ofar auðgildi væri mikilvægt. Þetta þekkjum við framsóknarmenn.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann: Hver er tilfinning hv. þingmanns sjálfs? Er hér góðæri eður ei?