145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:29]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott ef þetta er rétt. Þess vegna velti ég fyrir mér: Hvers vegna er þessi ólga í samfélaginu? Erum við Íslendingar tómir frekjuhundar? Það sem gerir mig svo óvissan, eins og hv. þingmaður nefndi hérna áðan, og frekar dapran er ástandið í samfélaginu. Eins og ég kom inn á áðan er siðrof og það hvernig við umgöngumst hvert annað. Ég held að við hér á þingi gætum verið fyrirmynd í því hvernig við eigum að koma fram hvert við annað, ekki síst topparnir. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra og ráðherrar yfir höfuð eiga að leiða vagninn. Ég kom að því í ræðu minni að mér finnist hæstv. forsætisráðherra ekki hafa staðið sig nógu vel í því og verið allt of fljótur að svara fólki með hroka og skætingi. Ég veit ekki, það má kannski deila um það. Það vantar greinilegt eitthvað upp á því að það er gríðarleg óánægja í samfélaginu og er búin að vera lengi, því miður.