145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir ræðuna. Hann fór um víðan völl og ég tek á nokkurn hátt undir það að mér finnst þingmaðurinn heldur svartsýnn, sérstaklega í ljósi þeirra upplýsinga sem hv. þm. Willum Þór Þórsson fór yfir í andsvari á undan mér. Þingmaðurinn vék að mínu máli sem ég hef verið að skoða og verið nokkuð að beita mér fyrir og benda á. Það eru nefnilega skattsvikin. Ríkisskattstjóri kom á fund fjárlaganefndar fyrir skömmu og þar komu fram þær upplýsingar að talið er að skattsvik í samfélaginu séu 80 milljarðar á ári. Það er heill landspítali sem skilar sér ekki inn í hagkerfið á Íslandi vegna skattsvika. Eigum við ekki frekar að hvetja þessa aðila til að fara að lögum í stað þess að vera sífellt að tala niður það sem vel er gert hér á landi. Þarna eru (Forseti hringir.) raunverulegir lögbrjótar upp á 80 milljarða. Og það er ýmislegt hægt að gera fyrir þá upphæð.