145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:32]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek alveg heils hugar undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, við þurfum að einhenda okkur í að reyna að fá fólk til að standa í skilum. Ég veit ekki hvernig við gerum það nema hvetja fólk til að hugsa betur til samfélagsins. Ég held að við gætum líka gert það með því að efla enn frekar samfélagskennslu í skólum. Því miður er ekki nógu mikil kennsla í þeirri grein þar sem við kennum — reyndar fjallar markmiðsgrein grunnskólalaga eingöngu um það hvernig á að búa til góðar manneskjur sem kunna að búa í samfélagi með öðrum. Ég held að við Íslendingar höfum aðeins klikkað á því. Páll Skúlason heitinn, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, sagði það meðal annars í grein einni að við höfum lagt allt of mikla áherslu á fræðsluna í staðinn fyrir menntun. Menntun snýst um það að búa til góðar manneskjur, en því miður virðumst við Íslendingar vera einhvern veginn þannig að í okkur vantar meiri samfélagsgreind. Ég vil ekki segja að ég sé mjög svartsýnn, ég tók fram að ég væri svolítið bjartsýnn á að við gætum, ef við snerum bökum saman (Forseti hringir.) og slíðruðum sverðin meira, náð mjög góðum árangri á Íslandi.