145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:35]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eflaust eru til margar leiðir til þess. Ég held að með því að auka enn frekar eftirlit og búa til einhvers konar, einhvern tímann heyrði ég svart gengi sem færi í það að vinna og finna skattsvikara. Talað er um að gríðarleg skattsvik séu til dæmis í ferðaþjónustunni og hvergi eins mikið og í virðisaukaskattinum. Ég held að það verði að búa til einhvers konar eftirlitssveit, ég veit það ekki, sveit eða bara efla eftirlit og komast að því hverjir eru að svindla og hverjir ekki og ná þannig í þessa peninga. Það verður örugglega ekki létt verk því að menn eru mjög seigir í því að svindla og komast undan og beita til þess alls kyns brögðum. Ég held að fyrst og fremst ættum við að höfða til samvisku fólks, kenna því og ræða meira í samfélaginu hvernig við búum til gott samfélag, hvernig við rekum það, hvernig það á að ganga upp og hvernig gott samfélag virkar. Eins og ég sagði áðan þurfum við að auka samfélagskenndir hjá fólki. Ég er gamall kennari, eða gamall, ég kenndi eitt ár í grunnskóla, og þegar maður talar um þetta við börn koma þau alveg af fjöllum þegar maður spyr: Hver borgar rúðurnar sem er verið að brjóta? Hverjir borga það að hreinsa upp ruslið og hverjir borga brotnar perur í ljósastaurum? Þau héldu að það væri bara kallinn í húsinu niðri í bæ, krakkar í 8. bekk. Þau hafa ekki hugmynd um að það eru foreldrarnir sem borga þetta og samfélagið. Við þurfum að auka þessa kennslu, held ég, til að efla samfélagið enn meira. Það er mín skoðun.