145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún vék meðal annars að áformum um eignasölu, Þjóðskjalasafnið, sem ég þekki ekki mikil deili á en önnur heimild er í frumvarpinu til sölu eigna, það er Tollhúsið og þá væntanlega í Tryggvagötunni. Ég vildi inna þingmanninn eftir því hvort henni væri kunnugt um hvort þar væri um að ræða sölu á því sem kallað er Kolaportið sem ég hefði haldið að tilheyrði þeirri byggingu. Ég notaði bara ferðina til að spyrja að þessu ef svo vildi til að hv. þingmaður þekkti til þessa atriðis.

Meginatriðið er hins vegar það sem þingmaðurinn vék að, að umræðan væri upplýsandi. Mér hefur þótt gæta nokkurs misskilnings í málflutningi stjórnarliða þegar kemur að kjörum örorku- og ellilífeyrisþega um að þeir hafi fengið sömu hækkanir á yfirstandandi ári og aðrir og ekki síst gætir ákveðinnar vanþekkingar á því hvaða fjárhæðir er um að ræða því að þetta snýst ekki allt um prósentur. Við borðum ekki prósentur. Við kaupum ekki mat fyrir prósentur eða leigjum húsnæði fyrir prósentur. Þetta er spurning um krónur og aura. Ég vildi þess vegna biðja þingmanninn um að upplýsa okkur aðeins um það hvaða stærðir þetta eru, hvaða kjör er verið að bjóða lífeyrisþegum upp á að lifa af því að ég veit að þingmaðurinn þekkir vel til þess og sömuleiðis hvaða hækkanir þeir hafa fengið í samanburði við það sem aðrir hafa notið að undanförnu.