145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðuna. Það var eins og við var að búast, ræða hennar einkenndist af sundrungarmálflutningi eins og ræðurnar sem voru haldnar í gær og fyrradag í þessu máli frá þingmönnum fyrrverandi ríkisstjórnarflokkanna. Ég vil benda á það að nú er búið að vera í gangi mikið málþóf hjá þessum aðilum. Ég ætla fyrst að drepa á það sem þingmaðurinn sagði í lok ræðu sinnar um orkukostnað heimila í landinu. Ég minni á að þingmaðurinn tilheyrir flokki sem vill herða enn frekar á orkuskatti og hefur það sem tillögu í þessari umræðu að hækka enn frekar skattheimtu á orku. Það er eins og það er.

Þingmaðurinn fór í byrjun mörgum orðum um RÚV. Ég vil nota tækifærið hér og geta þess að það er meinleg villa á bls. 10 í nefndaráliti meiri hlutans. Ég bað starfsmenn fjárlaganefndar í gær um að nefndarálitið yrði prentað upp. Fer ég jafnframt fram á það að 1. minni hluti sem er líka með nefndarálit, undir forustu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, láti prenta upp sitt álit því að þar eru meinlegar villur líka um RÚV á bls. 15. Þá er þetta jafnað út. Ég er talsmaður góðrar lagasetningar og það vita allir að nefndarálit eru lögskýringargögn og þar með er þetta leiðrétt.

Ég vil spyrja þingmanninn: Hvað kemur RÚV til með að hafa miklar tekjur (Forseti hringir.) á ári verði tillaga sem þingmaður fór yfir í upphafi að veruleika, að útvarpsgjald haldi sér á milli ára, en lækki ekki?