145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins í sambandi við RÚV, lækkun á útvarpsgjaldinu úr 17.800 kr. í 16.400 kr. þýðir um 400–500 millj. kr. tekjuskerðingu. Bara svo öllu sé haldið til haga var á árinu 2011 ákveðið að útvarpsgjaldið yrði 18.800 kr. og sú tala síðan fest í ný útvarpslög í mars 2013. Í lögum um forsendur fjárlaga sem samþykkt voru 2013 var gjaldið hækkað upp í 19.400 kr. í samræmi við verðlagshækkun og aðrar forsendur í þeim fjárlögum.

Núna í desember er ákveðið að gjaldið fari niður í 16.400 kr. á árinu 2016. Menn ætla að halda sig við það. Það þýðir bara að menn brjóta niður Ríkisútvarpið og þá eiga hv. þingmenn eins og Vigdís Hauksdóttir að ganga fram og segja að hún vilji brjóta niður Ríkisútvarpið. Það er ekki hægt að vanfjármagna Ríkisútvarpið, né heldur heilbrigðiskerfið og Landspítalann og halda að regluverkið gangi bara eins og smurð vél. Það hlýtur eitthvað að gefa eftir.

Hv. þingmaður talar um að fyrri ríkisstjórn hafi lagt á orkuskatt. Já, á stórfyrirtæki. Við í stjórnarandstöðunni lögðum fram tillögu þegar rætt var um að jafna innan dreifiveitna um að stóriðjan tæki þátt í þeim jöfnuði. Nei, það mátti ekki, jöfnuður átti bara að vera innan dreifiveitna en stórfyrirtækjunum var eina ferðina enn hjá þessari ríkisstjórn hlíft. 2 milljarða kr. orkuskattur á að falla niður af stórfyrirtækjum því að þar eru (Forseti hringir.) umbjóðendur þessarar ríkisstjórnar eða hennar minnstu bræður, það á að hlífa þeim og standa vörð um þá.