145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Þessi umræða undanfarna daga hefur dregið fram hversu vanbúið fjárlagafrumvarpið er til umfjöllunar. Í fyrradag sáum við prentvillu upp á 1,2 milljarða sem breytir frumvarpinu. Í gær gerði fjármálaráðherra samning við sveitarfélögin upp á viðlíka fjárhæðir (Gripið fram í.) sem breytir frumvarpinu og í Morgunblaðinu í dag lesum við um það að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sem gjammar hér fram í hafi við afgreiðslu málsins til 2. umr. vanmetið lífeyrisskuldbindingarnar sem leiða af nýgerðum kjarasamningum um á annað hundrað milljarða króna.

Nú legg ég yfirleitt ekki alltaf trúnað á það sem stendur í Morgunblaðinu þótt ég viti að hæstv. forseti geri það. En maður hlýtur að spyrja hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur hvað henni þyki um slík vinnubrögð, að hér séu gríðarlegar fjárhæðir á hverjum degi að breytast. Nú eru enn boðaðar fréttir af því að á leiðinni séu ný frumvörp um stórkostlega eignasölu á vegum ríkisins sem maður fer einnig að kanna hvernig hefur verið gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu eins og það liggur fyrir. Getur verið að á milli 2. og 3. umr. muni koma gríðarlega miklar breytingartillögur sem í raun og veru geri þær tölur sem við höfum verið að fjalla um í meginumfjöllun um fjárlagafrumvarpið, 2. umr., að engu hafandi vegna þess að þær lýsi engan veginn því frumvarpi sem á að verða að lögum fyrir áramót? Það hefði raunar átt að verða að lögum í gær en hefði aldrei verið til þess búið vegna þess að frumvarpið eins og það kemur til 2. umr. frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur er einfaldlega rangt í mörgum mikilvægum atriðum.