145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er ekki mjög traustvekjandi og það lítur út fyrir að ekki verði mikill afgangur ef hér halda áfram að detta inn hundruð milljóna sem ekki eru teknar með inn í þessa breytu, fjárlögin og vantar upp á. Þetta lýsir vondum vinnubrögðum og það er eitthvað mikið að ef ekki er hægt að treysta því þegar fjárlögin eru komin til 2. umr. að þá sé búið að róa fyrir allar víkur eins og sagt er á sjómannamáli og allt liggi fyrir sem á að falla undir fjárlög. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hlýtur að hafa áhyggjur af þessu. (VigH: Frumvarpið er lifandi plagg.) Það er ekki hægt að segja bara að frumvörp séu lifandi plagg, það er eitt af þessum gullkornum sem koma úr munni hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur en hún ætti kannski að líta í eigin barm í þessum málum. Hún ber ábyrgð á þessum málaflokki sem formaður fjárlaganefndar og hlýtur að taka á sig þá ábyrgð og reyna að bæta úr og biðja okkur þingmenn afsökunar á því hversu illa er staðið að því að vinna fjárlagafrumvarpið. Ef ný frumvörp eiga enn eftir að líta dagsins ljós eins og með eignasölu og annað, þá spyr maður sig bara: Erum við nokkuð tæk til að fara að afgreiða frumvarpið? Verðum við ekki að vera milli jóla og nýárs líka í boði vinnubragða hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og meiri hluta fjárlaganefndar og ríkisstjórnarinnar? Þessi ríkisstjórn er búin að sýna það að hún er með allt niður um sig, hún er rúin trausti um allt land (Forseti hringir.) og meira að segja þekktir sjálfstæðismenn vestur á fjörðum eru búnir að segja sig úr flokknum sem ég hefði aldrei trúað að mundi gerast. En guð láti gott á vita.