145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi sömu áhyggjum og hv. þingmaður yfir því máli sem er að koma hér inn á síðustu dögum og snertir meðhöndlun Seðlabankans á félagi varðandi eignasölu. Það hlýtur að hleypa upp öllum þingstörfum og ekki er á það bætandi. Stjórnarmeirihlutinn ætti auðvitað að vera á hnjánum gagnvart stjórnarandstöðunni að biðja um gott veður til að leysa úr öllum þeim rembihnútum sem hann sjálfur er búinn að hnýta.

En um atvinnumál í Norðvesturkjördæmi og byggðamál almennt, þá eru svæðin þar auðvitað mismunandi, heilt yfir, en mörg svæði innan míns kjördæmis, Norðvesturkjördæmis, þurfa virkilega á því að halda að það komi einhver innspýting og ríkisvaldið leggist á árar með heimamönnum við uppbyggingu og nýti til þess þau tæki sem til eru, byggðaáætlun, sóknaráætlun og menningar- og vaxtarsamninga, og byggi upp innviðina. Samgöngur í Norðvesturkjördæmi eru auðvitað að hluta til okkur öllum sem þjóð til skammar. Atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum hefur verið að eflast vegna laxeldis og er mikill hugur þar í heimamönnum, en enn þá dregur ríkisvaldið lappirnar í því að koma til móts við uppbygginguna með öflugum aðgerðum í innviðauppbyggingu eins og samgöngum og öðru því um líku. Sama má segja um veikingu framhaldsskólanna úti á landi sem er mjög alvarlegt áhyggjuefni. Og vegirnir, héraðsvegir og tengivegir, eru verri en einhverjir reiðstígar í Kákasusfjöllum, eins og þingmaður af höfuðborgarsvæðinu orðaði það í umræðu í gær.