145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 3,7 milljarða kr. lægri vaxtakostnaði af því að inn komi 170 milljarðar vegna stöðugleikaframlagsins. Innkoman er hvergi sýnd en útgjöld vegna lægri vaxtakostnaðar eru sýnd upp á 3,7 milljarða og okkur í fjárlaganefnd var sagt að það væri ekki alveg ljóst að eitthvað yrði um stöðugleikaframlagið í fjáraukalögunum eða þá í fjárlögum, það færi eftir því hvernig þetta dytti inn. Fjáraukalagafrumvarpið bíður 3. umr. og við stöndum hér í 2. umr. fjárlaga þannig að þarna eru risamál á ferðinni.

Hv. þingmaður nefndi áðan samkomulagið vegna yfirfærslu um málefni fatlaðra. Það eru 1,5 milljarðar. Og hvað með seðlabankafrumvarpið sem er komið hér inn, þurfum við ekki að skoða það svolítið vel? Og síðan er annað mál útistandandi, Ríkisútvarpið. Það eru að vísu kannski ekki svona stórar tölur, nær 400 milljónum, en það er samt sem áður frumvarp sem búið er að boða að eigi að koma hingað inn. Það þarf þá að samþykkja ef útvarpsgjaldið á að vera með öðrum hætti en sett er upp í fjárlagafrumvarpinu.

Hvað finnst hv. þingmanni um meirihlutaálitið þegar fjallað er um Ríkisútvarpið? Eru þar ekki líka hin pólitísku skilaboð sem meiri hluti fjárlaganefndar setur hæstv. ráðherrum? Þingmenn (Forseti hringir.) í meiri hlutanum virðast setja upp skilyrði fyrir hæstv. ráðherra ef ég túlka nefndarálitið rétt.