145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:12]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég þakka fyrir þær upplýsingar að fjármálaráðherra hyggist fara yfir þessi mál með forustumönnum flokkanna, enda væri óeðlilegt annað í ljósi þess hversu mikið umfang þarna er á ferðinni og hvar við erum stödd á tímalínunni. Starfsáætlun er lokið fyrir jól. Það er þannig eina ferðina enn að við horfum á það að starfsáætlun er meira lögð fram sem einhvers konar viðmiðunarplagg en raunverulegur rammi utan um störf Alþingis.

Ég vil hins vegar segja um þær stóru tölur sem lúta að samkomulagi við sveitarfélögin um málefni fatlaðra þar sem við sjáum í fjölmiðlum og á heimasíðum ráðuneytanna að um sé að ræða samkomulag upp á 1,5 milljarða kr. að ég fagna samkomulaginu. Ég vil taka það sérstaklega fram að það er ánægjulegt að tekist hefur samkomulag um þennan mikilvæga málaflokk og tekjugrundvöll sveitarfélaganna til að sinna honum. Hins vegar liggur ekkert fyrir um hvernig þessu verður komið fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Stendur til að setja þetta inn milli 2. og 3. umr.? Við höfum ekki heyrt neitt frá forustu fjárlaganefndar um það. Væri ekki ráð að við gerðum hlé á þessari umræðu þannig að (Forseti hringir.) við vitum um hvað við erum að tala? Það eru að detta inn milljarðar hérna dag eftir dag án þess að fólk viti almennilega hvar á að koma þeim fyrir.