145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að forustumenn hafi verið kallaðir til en mér líst ekki á að halda þessari umræðu áfram í ljósi þess sem hér hefur verið rakið. Það er ekki eins og við séum að tala um einhverja smáaura á milli umræðna. Við fengum nánast engan tíma til að undirbúa okkar nefndarálit eftir gríðarlegar tillögubreytingar meiri hlutans og mér sýnist við þurfa heldur betur einhvern tíma til að leggjast yfir þær. Þetta er ekki nóg. Við í þingflokki Vinstri grænna vorum búin að áætla að nýta hádegishléið til ákveðinna hluta og ég tel að við þurfum að minnsta kosti að fá eitthvert andrými eftir fundinn með forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna um þessi mál á eftir. Ég held að það liggi alveg fyrir að það þarf að vera hægt að miðla einhverjum upplýsingum þannig að við getum haldið þessari umræðu áfram. Ég er hrædd um að það hefði heyrst eitthvert hljóð úr horni á síðasta kjörtímabili ef svona lagað hefði verið lagt fram eins og hér er verið að gera núna.