145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við fögnum því auðvitað að náðst hefur samkomulag við sveitarfélögin vegna málefna fatlaðra. Það sýnir bara að þessi ríkisstjórn er að störfum og þannig er það og auðvitað er að því leyti fjárlagafrumvarpið háð breytingum á því tímabili sem verið er að ræða það. Það er ekkert nýtt í því. Hér er fjargviðrast mikið út af einhverju sem er kannski 0,2% af fjárlögunum og verið að gera stórmál út af því.

Ég styð auðvitað að þingmenn fái upplýsingar um þetta og fagna því að fjármálaráðherra ætlar að funda hér með þingmönnum út af þessu. Það er samt svolítið kastað úr glerhúsi þegar sagt er að hér eigi að vera upplýsingar og opin málsmeðferð ef ég rifja aðeins upp ræðu mína [Kliður í þingsal.] þar sem ég minnti á Svavarssamningana sem voru gerðir á sínum tíma og átti að keyra í gegnum þingið. Þetta væru fyrstu fjárlögin sem við værum að vinna ef þeir hefðu náð í gegn (Forseti hringir.) og þá værum við að eiga við 40 milljarða á fjárlögum næsta árs, það er svolítið meira en þau 0,2% sem hér er verið að ræða um, og á þarnæsta ári 60 og eitthvað milljarða og það árlega í sex ár og síðan aftur 40. (Forseti hringir.) Sem sagt, eitt háskólasjúkrahús á hverju ári næstu átta árin. [Háreysti í þingsal.] (Gripið fram í: Meira, meira.) (Gripið fram í.)