145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Miðað við útreikninga hv. þm. Jóns Gunnarssonar getum við þakkað fyrir að hann er ekki í fjárlaganefnd. Nóg er nú samt, vil ég segja. (Gripið fram í.) Menn eru að tala um — já, það er kannski meira en aðrir í fjárlaganefnd, ég tek undir það. (Gripið fram í.) Ég hef krafist þess og þakka forseta fyrir að bregðast við með því að boða fjármálaráðherra niður í þinghús til að ræða við þingið um meðferð þessa máls, en það sem ég spyr hér um er: 0,2% af hverju? Af fjárlögum þýska ríkisins? Hvers konar útreikningar eru þetta? Þetta er eitt stærsta málið sem hefur rekið á fjörur þjóðarinnar til úrlausnar [Órói í þingsal.] (Forseti hringir.) og þetta þurfum við að ræða. Við þurfum að fara í það til að klára það. Það er ómögulegt að halda þessari umræðu áfram. Fyrst það er einn og hálfur tími þar til fjármálaráðherra á að koma í hús og útskýra þetta mál í þinginu óska ég eftir því að umræðunni verði frestað þar til þær skýringar liggja fyrir og þá kemur í ljós hvort það er vit í því að halda 2. umr. um fjárlög næsta árs áfram eða ekki. (Gripið fram í.) Þetta mál er af þeirri stærðargráðu. (Gripið fram í.)