145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég var hér í gær til miðnættis og var bara að koma hingað núna aftur þar sem ég hafði ekki tök á að mæta strax kl. 10. Það fyrsta sem ég sé er að það koma enn fleiri breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. Ég heyri svo að það eigi að vera fundur með fjármálaráðherra, a.m.k. að einhverjir eigi að fara á fund með hæstv. fjármálaráðherra á eftir. Mig langar bara að taka undir það sem hér hefur verið sagt um að þessum fundi verði frestað, a.m.k. fram yfir þann fund. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki lengur hvaða forsendur eru undir því að ræða þetta frumvarp. Sífellt kemur eitthvað nýtt í ljós sem breytir útgjaldahliðinni og til að við getum átt einhverja vitiborna umræðu um fjárlagafrumvarpið sem er stærsta mál hverrar ríkisstjórnar á hverju ári hljótum við þingmenn allir (Forseti hringir.) að þurfa að vita hvað það er sem við erum í rauninni að ræða. Þess vegna tel ég að það eigi að fresta þessum fundi.