145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Það er svolítið sérkennilegt að standa hér í ræðustól til að ræða fjárlög fyrir árið 2016 eftir það sem við nú vitum að það eru að detta inn alls konar breytingar og stórar breytingar sem við vitum ekki hvernig muni leggjast í fjárlögunum. Við getum talað almennt um okkar pólitík og áherslur en um beinharða peninga virðist ekki alveg vera hægt að ræða um, hvert svigrúmið verður til að greiða niður skuldir svo eitthvað sé nefnt.

Í fjárlagafrumvarpinu er talað um að stöðugleikaframlagið muni koma inn annaðhvort í fjáraukalög 2015 eða fjárlög 2016. Við erum í 2. umr. um fjárlög 2016 og fjáraukalögin bíða 3. umr. Fjárlaganefnd hefur ekki verið kölluð saman til að fara yfir þessi stóru mál. Hérna erum við ekki að tala um 1 eða 2 milljarða, við erum að tala um 379 milljarða, ef það er stöðugleikaframlagið sem upp hefur verið gefið. Að minnsta kosti er þarna um hundruð milljarða að ræða og hálfhjákátlegt að standa hér og ræða fjárlagafrumvarpið þegar við vitum ekki hvernig það muni leggjast.

Ég vona að sá fundur sem boðaður er með fjármálaráðherra klukkan eitt með fulltrúum flokkanna muni varpa ljósi á það hvernig á að fara með þessi mál. Það er auðvitað ekki boðlegt að hér sé verið að henda inn milljarði á dag í einhverjar breytingartillögur við fjárlögin þegar við sjáum ekkert fyrir endann á hlutunum og við vitum ekkert hvenær hv. fjárlaganefnd á að hafa tóm til að ræða þessi mál. Mér heyrðist á hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, formanni nefndarinnar, að hún hefði ekki áhyggjur af því að nefndin ætti eftir að fara í gegnum þessi mál.

Það er sem sagt gert ráð fyrir 3,7 milljörðum kr. í fjárlagafrumvarpinu út af stöðugleikaframlaginu sem kemur fram sem lægri vaxtakostnaður. En það kemur ekkert inn til að sýna okkur tekjurnar á móti. Þegar við vorum að kvarta undan þessu í minni hluta fjárlaganefndar fengum við þau svör að allt væri svo óljóst í kringum þetta og þetta yrði annaðhvort í fjáraukalögunum eða fjárlögunum.

Nú er 12. desember og það líður að jólum. Við afgreiðum ekki hundruð milljarða á örfáum klukkustundum eða örfáum dögum. Það er alveg ljóst og gefa þarf tóm til að ræða þessi mál og algerlega ómögulegt að við eyðum dýrmætum tíma í að fara hér í ræður um fjárlög sem við vitum ekkert hvernig munu leggjast. Það er óboðlegt. En forseti vill hafa þetta svona og hér stend ég og get ekki annað og ætla því að ræða nokkur atriði á þeim tíma sem ég á eftir af þessum stutta ræðutíma sem ég tel vera afar brýn og vanta í fjárlagafrumvarpið.

Eitt af því eru barnabætur. Ríkisstjórnin barði sér á brjóst hér þegar verið var að hækka virðisaukaskatt á matvælum og sagði: Við hækkum matinn í landinu en við ætlum að láta barnafjölskyldurnar fá milljarð sem mótvægisaðgerð af því að heimilisreikningurinn verður auðvitað dýrari og börnin þurfa náttúrlega mat á sinn disk. Það sem kemur síðan í ljós þegar árið er gert upp hvað barnabætur varðar að þessi milljarður gekk ekkert út fyrir barnafjölskyldurnar. 600 milljónum af honum var skilað til baka í ríkissjóð. Hver var ástæðan fyrir því? Ástæðan var sú að breytingarnar sem hæstv. ríkisstjórn gerði var bara öðrum megin. Hún fékk þingmenn til að samþykkja milljarð til viðbótar sem mótvægisaðgerð við matarskatt en breytti svo ekki viðmiðunum í bandorminum sem segir til um það að barnabætur byrja að skerðast við 200 þús. kr. mánaðarlaun. Það furðulega er að það á ekki að breyta þeim viðmiðum fyrir árið 2016. Það á að halda því áfram. Minni hlutinn telur þetta algerlega ófært og gerir tillögu, að minnsta kosti sé staðan þannig að fyrir þá sem eru með lágmarkslaun á árinu 2016, sem eru samkvæmt kjarasamningum VR og Flóabandalagsins 270 þús. kr. á mánuði á árinu 2016, byrji barnabætur ekki að skerðast fyrr en í fyrsta lagi við lágmarkslaunin. Það er auðvitað ekki gott og svo mikið langt frá því sem Norðurlöndin miða við þegar barnabætur eru annars vegar þar sem horft er á barnabætur sem framlag til að jafna stöðu barnafjölskyldna, ekki fátækrastyrkur, heldur til að jafna stöðu barnafjölskyldna og við erum mjög langt frá því. Eins og breytingarnar sem gerðar voru síðast á barnabótunum með skerðingarviðmiðun við 200 þús. kr. og svo mjög grimmum skerðingarhlutföllum eftir það þannig að við 500 þús. kr. er ekkert eftir hjá einstaklingum, þá er þetta meira eins og styrkur til fátæks fólks en barnabætur sem jafna stöðu barnafjölskyldna.

Við gerum tillögu um þessa breytingu og bara sú breyting að fara úr 200 þús. kr. upp í 270 þús. kr. og tvisvar sinnum það hjá hjónum eða sambýlisfólki kostar 2,4 milljarða. Þeim peningum væri vel varið því að allar greiningar sýna að það eru barnafjölskyldurnar sem eiga í mestu erfiðleikum og allt of mörg börn á Íslandi fara á mis við efnisleg gæði, geta ekki tekið þátt í tómstundastarfi svo dæmi séu tekin. Allt of mörg börn búa við slíkar aðstæður og það er ólíðandi, ég tala ekki um í þessu blússandi góðæri sem menn eru hér að tala um og telja að það sé bara sniðugt forgangsverkefni að lækka skatta.

Tekjuskattsbreytingarnar á árinu 2016 kosta 5,5 milljarða. Í fyrra voru líka gerðar breytingar og á árinu 2017 eru aðrir 5,5 milljarðar til viðbótar, það er því forgangsverkefni að lækka skatta á þá sem standa ágætlega fyrir vegna þess að út úr þessum skattkerfisbreytingum fær láglaunafólkið ekki neitt en þeir sem eru með 850 þús. kr. eða meira fá 3 þús. kr. rétt úr ríkissjóði á mánuði í þessum breytingartillögum.

Kári Stefánsson sem skrifað hefur um heilbrigðiskerfið og telur hæstv. ríkisstjórn vera einnota hefur kallað eftir því að fá að greiða hærri skatta, hann hefur góðar tekjur. Hægri stjórnin réttir honum 3 þús. kr. á mánuði. En þeir sem eru undir 400 þús. kr. fá minna og þeir sem eru með lágmarkslaun ekki neitt. Þetta er forgangsröðunin, herra forseti, og það er grátlegt að menn skuli ætla sér að fara þá leið.

Minni hlutinn gerir einnig tillögu um að hækka viðmiðunarmörkin í fæðingarorlofi upp í 500 þús. Þau eru núna 340 þús. og hafa staðið í stað hjá núverandi ríkisstjórn fyrir utan 20 þús. kr. sem settar voru inn, ég man ekki hvort það var haustið 2013, já, í fyrra, 2014, þannig að við gerum ráð fyrir að hækkunin fari upp í 500 þús. sem kostar rúman milljarð. Þarna væri fjármunum vel varið. Barnafjölskyldur fengju meira í sinn hlut og þeir sem taka sér fæðingarorlof fá þá hærri mánaðargreiðslur, þurfa ekki að fara í mikla tekjuskerðingu við það eitt að vera hjá nýfæddum börnum sínum.