145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:59]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að staldra við það sem hv. þingmaður ræddi um hækkun matarskattsins á sínum tíma og þá pólitísku umhleypinga sem af þeirri umræðu hlutust. Þegar sú umræða stóð sem hæst kom fram að Framsóknarflokkurinn hefði í sínum þingflokki gert fyrirvara við hækkun matarskattsins enda var áformað þá að matarskatturinn yrði hækkaður upp í 12% en síðan eftir eitthvert nudd varð niðurstaðan sú að hækkunin yrði upp í 11% með mótvægisaðgerðum eins og hv. þingmaður fór yfir.

Í fréttum frá þessum tíma kemur fram að hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Frosti Sigurjónsson, talaði um sína afstöðu sem var einna eindregnust í hópi stjórnarliða á þessum tíma þar sem fram kemur að hann hafi sett þann fyrirvara við hækkun matarskatts að mótvægisaðgerðirnar yrðu að duga til að heimilin yrðu í betri stöðu á eftir. Auk þess kom fram í máli hans og fleiri framsóknarmanna sem voru sérstaklega efins um þetta að það snerist um alla hópa samfélagsins, ekki bara neðstu tíundina eða tvær neðstu tíundirnar eða svo, heldur alla hópa samfélagsins. Hann vildi vera fullviss um það og það kom líka fram í máli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og fleiri að þetta ætti að verða niðurstaðan.

Nú kemur fram að hluti af þessum mótvægisaðgerðum hefur verið dreginn til baka. Ég sé ekki betur en að það sé meiri hlutinn af því fjármagni sem átti að stilla málið af og ég spyr hv. þingmann hvort yfir þetta hafi verið farið sérstaklega í fjárlaganefnd, þ.e. með hvaða hætti ætti að vera tryggt að mótvægisaðgerðirnar tryggðu (Forseti hringir.) bætta stöðu allra heimila í landinu eins og var skilyrði Framsóknarflokksins á sínum tíma.