145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Það er nefnilega áhugavert að fara yfir samskiptin milli stjórnarflokkanna á þessum tíma þar sem kemur fram að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra leggur mjög mikla áherslu á að farið verði í þessar breytingar á virðisaukaskattskerfinu og raunar með það að markmiði að fækka þrepunum eins og ég skil það. Þetta var þó undarlegt skref í þá átt því að þrepin voru tvö eftir sem áður en í fjölmiðlum á þessum tíma segir hann að það verði metið hvort mótvægisaðgerðir með fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á matvæli dugi. Það vekur athygli manns að eftir þennan tíma skuli hvergi verið endurmetið hvaða áhrif það hefur á þessa hópa þegar aðgerðin sem slík er í raun og veru nánast öll dregin til baka. Mótvægisaðgerðin er nánast öll dregin til baka og það sjást engin spor eða merki um að við þessu hafi verið brugðist, (Forseti hringir.) þetta greint á nokkurn hátt eða þá komið með breyttar eða endurreiknaðar mótvægisaðgerðir af því tilefni.