145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið.

Ég tek einmitt undir það að við þurfum að fara að fá fram þetta frumvarp um almenningssamgöngur. Það er mjög brýnt af því að þeir fjármunir sem settir eru hér í breytingartillögum meiri hlutans nýtast auðvitað ekki öllum og við vitum ekki hvernig þeim verður skipt, það er ein tala. Við vitum að sum sveitarfélög, og sérstaklega Eyþing, eru illa stödd eftir þá skiptingu sem átti sér stað í upphafi, það var ekki jöfn skipting. En hitt er svo stóra málið í þessu að það skuli vera þannig að hægt sé að keyra ofan í leiðir sem verður til að það ber sig ekki. Maður hefur miklar áhyggjur af því.

En í ljósi umræðunnar hjá hv. forustu fjárlaganefndar um hvert peningarnir fara þá hefur komið í ljós að gríðarlegir fjármunir fara í aðstoðarfólk og aðkeypta vinnu og annað slíkt. (Forseti hringir.) Ég vil setja það svona í restina inn í umræðuna af því að við höfum verið að tala um hvernig við forgangsröðum að þarna erum við að tala um afar stórar fjárhæðir sem gætu til dæmis farið í þau (Forseti hringir.) mál sem við höfum verið að nefna og gera tillögu um í minni hlutanum.