145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við í fjárlaganefnd höfum talað um þessar mótvægisaðgerðir og barnabæturnar sérstaklega þar og húsnæðisbæturnar en við höfum líka nefnt 200 milljónirnar sem áttu að fara í vaxtabætur sem eru bæði tekju- og eignatengdar. Af því að fasteignamatið hækkaði lækkaði vaxtabótahlutinn til heimilanna. Þó að launin hafi lítið breyst á heimilinu fengu þau við þetta atriði minna í sinn hlut.

Þetta er alvarlegt en það er eins og fólk skilji ekki þetta reikningsdæmi, að í staðinn fyrir að kvarta yfir þessu eigum við bara að gleðjast yfir því að laun hafi hækkað. Menn horfa ekki á það að barnabætur byrja að skerðast við 200 þús. kr. og þegar í ljós kom að þetta mundi ekki ganga út átti að hækka þessi viðmið þannig að það sem Alþingi hafði samþykkt hefði gengið til barnafjölskyldna. Það þarf ekki að endurtaka hér að allt of margar búa við of kröpp kjör.

Þegar við ræddum stöðugleikaframlagið á þeim tíma í fjárlaganefnd fengum við þær upplýsingar að þetta væri allt að gerast og það þyrfti að sjá hvað yrði samþykkt af þessum samningum, þeir þyrftu bara að sækja um þetta fyrir áramót og það væri ekki víst að þetta væri allt saman komið o.s.frv. Mönnum þótti jafnvel líklegra að þetta kæmi frekar í fjáraukalögunum en fjárlögunum og báðu um tóm til að finna út úr því hvernig best væri að sýna þetta í fjárlögunum en ákváðu samt að gera ráð fyrir 3,7 milljörðum á kostnaðarhliðinni til að sýna betri stöðu.