145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er ekki bara hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanni Pírata, sem er neitað um aðgang að þingsalnum sem hún hefur verið kjörin til að starfa í heldur hefur hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sömuleiðis verið synjað um aðgang að þingsalnum og fleiri þingmönnum. Þessi hrapallega staða er náttúrlega meðal annars til komin af því að starfsáætlun þingsins er farin út í veður og vind. Þegar þessir þingmenn voru tilkynntir út af þingi lá ekkert fyrir um að hér yrði fundur á laugardag. Birgitta Jónsdóttir var að störfum fyrir Alþingi á erlendum vettvangi sl. laugardag, fyrir viku síðan. Hefði það legið fyrir að hér yrði fundur á laugardegi hefði hún auðvitað verið tilkynnt út á föstudeginum. Það er þess vegna ekkert nema handvömm forseta Alþingis og forsætisnefndarinnar allrar, sem hlýtur að bera ábyrgð á starfsáætluninni, að svona sé komið, að starfsáætlunin sé farin út í veður og vind og að þjóðkjörnum fulltrúum, (Forseti hringir.) rétt kjörnum alþingismönnum, sé neitað um aðgang að salnum.