145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:24]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti telur að þetta séu ákaflega villandi ummæli. Hér er um það að ræða að hv. þingmenn hafa vitaskuld verið kjörnir til setu á Alþingi. Þær reglur gilda að þegar þingmaður getur ekki sótt þingfund á hann rétt á að kalla inn varamenn eftir tilteknum lögum og reglum. Þeim hefur verið fylgt. Það lá fyrir að þegar hv. þingmenn fóru til fundar um helgina að varamenn þeirra yrðu kallaðir inn á mánudegi en ekki fyrir helgina. Það er ekkert nýtt sem komið er upp í þeirri stöðu. Það hefur legið fyrir allan þennan tíma. Þess vegna er verið að hlíta hér reglum í hvívetna. Forseta þykir mjög miður að verið sé að reyna að þyrla upp moldviðri í kringum þetta mál sem er að mati forseta fullkomlega tilefnislaust.