145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Mér finnst forseti taka nokkuð djúpt í árinni þegar hann snuprar þingmenn fyrir að ræða þessi mál. Mér finnst ekki fara vel á því. Ég held að það skipti máli að við höldum því til haga um ákvörðun um laugardagsfund að það eru almennt ekki fundir á laugardögum og almennt gerum við ráð fyrir því að starfsáætlun haldi. Við fáum að vita um laugardagsfund á ellefta tímanum hér í gærkvöldi. Fjórða kvöldið þar sem fundað er til miðnættis og lengur fáum við að vita að fundur verði daginn eftir, á laugardegi kl. 10.

Forseti. Ég vil bara biðja um að við skiptumst á skoðunum af yfirvegun um þessa stöðu og forseti sé ekki að halda því fram að hér sé ekkert nýtt á ferðinni. Það er eitthvað nýtt á ferðinni þegar boðað er til laugardagsfundar með engum fyrirvara, þegar við erum rétt búin að ljúka við fyrstu ræður þingmanna í 2. umr. fjárlaga. Það eru að detta inn hérna nýjar fréttir (Forseti hringir.) á hverjum degi um milljarða upp og milljarða (Forseti hringir.) niður. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að stjórnarmeirihlutinn (Forseti hringir.) er í mjög miklum vandræðum með sinn málflutning.