145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:29]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nú finnst mér stjórnarandstaðan hafa náð botninum í málflutningi sínum. Lágkúran er orðin einhvern veginn algjör og málefnaþurrðin af hálfu þessa (SSv: Lyftu okkur upp …) virðulega fólks sem kjörið er [Frammíköll í þingsal.] á löggjafarsamkomu landsins. [Frammíköll í þingsal.] Nú fara þau af stað með háreysti í þingsölum, kalla menn þingdólga þegar það hentar þeim ef einhverjir kalla hér fram í en stunda það svo mest sjálf. (Gripið fram í.) Það er dæmigert.

Virðulegur forseti. Ég held að það sé komin ákveðin skýring fram hér á því af hverju þetta málþóf, sem er ekki hægt að kalla annað núna, er af hálfu stjórnarandstöðunnar. Það er af því að ákveðnir þingmenn voru í París í marga daga að ræða loftslagsmál og þeir þurfa að taka þátt í þessari umræðu. (BjG: Er það eitthvað óeðlilegt?) Virðulegur forseti, 3. umr. er eftir um þetta mál. Hún er eftir. Málið á eftir að fara til nefndar milli 2. og 3. umr. Það eru langir ræðutímar mögulegir við 3. umr. málsins og allir (Forseti hringir.) þessir þingmenn geta tekið þátt í þeirri umræðu.

Lágkúran (Forseti hringir.) er orðin algjör og málefnaþurrðin, virðulegur forseti.