145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við vitum það og það er ekki nýtt að starfsáætlun þingsins hefur ekki haldið á undanförnum árum og ekki á síðustu tveim kjörtímabilum. Við berum öll ábyrgð á því. Ég átta mig ekki alveg á þessu. Þó svo að við vitum það, eins og oft gerist í desember því að það er ekki í fyrsta skipti núna sem við fundum á óhefðbundnum tíma, sem er að vísu að verða hefðbundinn tími í desember, þá getum við ekki farið að miða áætlun þingsins út frá einstaka þingmönnum, jafn góðir og hv. viðkomandi þingmenn eru. Allt sem við gerum skapar fordæmi. Maður hefur sjálfur lent í því að vilja taka þátt í einhverri umræðu þegar maður er fjarverandi vegna starfa þingsins, t.d. í alþjóðanefndum eða öðru slíku, og það er mjög bagalegt en maður getur ekki farið fram á það að áætlun verði breytt til þess að maður (Forseti hringir.) geti tekið þátt í umræðunni. Maður hlýtur að skilja (Forseti hringir.) afstöðu forseta. Það er ekki hægt (Forseti hringir.) að gera athugasemdir við hana.