145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er alsiða á Alþingi að við þurfum að meta það þegar við förum að sinna verkefnum okkar á erlendum vettvangi hvort við missum af einhverri umræðu eða afgreiðslu mála í þinginu. Þetta er það sem hver og einn þingmaður verður að gera upp við sig á hverjum tíma. Ég geri ekki lítið úr því að framlag hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, hafi verið mikið á loftslagsráðstefnunni í París. Hún taldi mikilvægt að vera þar, mikilvægara en að taka þátt í þessari umræðu. Við getum ekki stýrt þingstörfum eftir þörfum þingmanna að þessu leyti. (Gripið fram í.)

Varðandi laugardagsfundinn hér í dag, virðulegur forseti, þá gátu þingmenn stjórnarandstöðunnar ekki reiknað með öðru en að fundur yrði í dag vegna þess að við upphaf þingfundar í gær tilkynnti forseti að hann reiknaði með að ljúka umræðu um þetta mál í gærkvöldi. Hann reiknaði með því. Það lá fyrir (Forseti hringir.) að það yrði ekki gert. Það voru háværar kröfur og mótmæli við kvöldfundi. Mér finnst algerlega fordæmalaust hvernig (Forseti hringir.) minni hlutinn á þingi hjólar í forseta þingsins þar sem ábyrgðin liggur öll (Forseti hringir.) hjá þingflokksformönnum þingflokkanna á Alþingi.