145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:38]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Á grunni þess að ég lít þannig á að forseti sé skynsamur maður og raunsær og vitur — ég læt þetta duga í bili — [Hlátur í þingsal.] þá veit ég að það hefur runnið upp fyrir hæstv. forseta að botninn úr umræðunni um fjárlagafrumvarpið er farinn. Það er ekki hægt að halda þessari umræðu áfram. Ég hef áður vísað til ástæðunnar fyrir því, þ.e. hér liggur fyrir risavaxið frumvarp sem snertir fjárlagafrumvarpið sem kom hingað inn í myrkrinu í gærkvöldi eða nótt, var þá lagt fram. Þess vegna óska ég eftir að þessum fundi verði frestað nú þegar.

Í öðru lagi óska ég eftir að þingflokksformenn verði boðaðir til fundar með forseta til að fara yfir það mál sem hér hefur verið rætt varðandi innkomu aðalmanna í stað varamanna og hverjir eiga rétt á að sitja í þingsal til umræðu og afgreiðslu mála. (Forseti hringir.) Ég veit að þetta er runnið upp fyrir forseta. Ég óska eftir því (Forseti hringir.) að fundinum verði frestað og (Forseti hringir.) að leyst verði úr þessu máli.