145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg einsýnt að hér stendur forseti frammi fyrir því að ekki er fundarfært sökum þess ástands sem upp er komið í þinginu hvað varðar fjárlagaumræðuna og eins ágreininginn og túlkunaratriði sem upp hafa komið varðandi setu varaþingmanna. Ég tel að það sé forseta að liðka fyrir störfunum því að það er mikið í húfi. Það eru ekki margir dagar til jóla. Það virðist vera heilmargt undir sem á eftir að ræða. Ég er hrædd um að ríkisstjórnin þurfi á því að halda að minni hlutinn fái að hafa einhverja aðkomu að því sem fram undan er, en fái ekki milljarða í andlitið dag hvern sem meira að segja meiri hlutinn virðist ekki vita af, nema sumir. Kannski vissi hann af því. Það hefur ekki komið svar við því hvort málið um Seðlabankann var tekið fyrir í flokkunum.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé skynsamlegt að fresta fundi nú þegar og sjá til þess að fólk fái (Forseti hringir.) tíma til að ræða saman og ákveða hverjir fara á fundinn með forustumönnum flokkanna. (Forseti hringir.) Svo þarf þingflokkurinn að fá að funda í framhaldinu.