145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til þess að þakka fyrir það hlé sem gert var á fundinum og þann fund sem haldinn var með formanni Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni og fulltrúum flokkanna. Það er alltaf gagnlegt að ræða málin, en ég hlýt að kalla eftir því, virðulegur forseti, að þessari umræðu verði frestað og frumvarpinu eins og það nú stendur vísað aftur til hv. fjárlaganefndar til frekari úrvinnslu. Komið er á daginn að það sem hér liggur fyrir er ekki frumvarp til fjárlaga heldur einhvers konar uppkast. Það er bæði um að kenna mistökum, vanáætlunum og síðan hefur verið boðað að verulegar breytingar þurfi enn að gera á málinu. Það er þess vegna með engum hætti búið til 2. umr. á Alþingi og efnislegrar umræðu. Þetta er ekki frumvarpið, þetta er bara uppkast eða einhvers konar drög að tillögum sem eiga eftir að taka miklum breytingum (Forseti hringir.) og eðlilegt að þær breytingar komi fram áður en 2. umr. verður fram haldið.