145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Í þau 25 ár sem ég hef tekið þátt í umræðum um fjárlög þá man ég ekki eftir öðrum eins losarabrag á vinnslu frumvarpa millum umræðna eins og nú. Eins og þingheimi er kunnugt þá lít ég nú svo á að ég sé í hópi helstu unnenda forustu fjárlaganefndar og mér er annt um það að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir komist þokkalega frá þessu máli. Nú hefur það komið fram dag eftir dag að það eru stórkostlegar villur í þeirri vinnu sem hv. þingmaður hefur stýrt. Hún kallar hér fram í meira að segja að verið sé að prenta upp nefndarálit meiri hlutans. Það gerist á allra síðustu stundum 2. umr. Ég teldi því öllum hollast og þó helst hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að við létum nú staðar numið og gæfum hv. formanni fjárlaganefndar tóm til þess að fara yfir og prenta upp það allt sem hún telur þurfa. En það er náttúrlega ekki vansalaust að hér á milli (Forseti hringir.) daga komi það allt í einu upp að það vanti á tólfta hundrað (Forseti hringir.) milljónir króna í plaggið sem hún sendir frá sér vegna þess að hv. þingmaður hefur gleymt að taka tillit til launahækkana kennara. (Forseti hringir.) Getur það verið sem maður heyrir á skotspónum að það vanti líka að taka fullt tillit til launahækkana (Forseti hringir.) sérgreinalækna? Hvað með málaflokkinn fatlaðir, herra forseti? (Gripið fram í.) Svo mætti lengi telja. Eigum við ekki að sýna hv. formanni fjárlaganefndar (Forseti hringir.) miskunn og leyfa henni að fara heim og hvíla sig, gefa henni svo ráðrúm (Forseti hringir.) til þess að ganga endanlega frá þessu plaggi?

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til hv. þingmanna að virða tímamörk.)