145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég sagði frá því í ræðu í morgun að verið er prenta upp nefndarálit meiri hlutans vegna þess að það er villa í því og hef ég farið yfir það. Ég bað jafnframt um að nefndarálit 1. minni hluta fjárlaganefndar væri prentað upp líka því að þar er villa á bls. 15 um sama málaflokk og við í meiri hlutanum erum að lagfæra.

Þetta er að verða ein skrýtnasta fjárlagaumræða sem ég hef tekið þátt í, virðulegi forseti, og er nú að fara inn í mitt sjöunda ár hvað varðar fjárlög, því að hér snýst umræðan bara alls ekki um fjárlög eða fjárlagafrumvarpið, hún snýst um persónulega óvild í garð formanns fjárlaganefndar. Vigdís Hauksdóttir er til umræðu í ræðustól Alþingis í fjárlagaumræðunni en ekki fjárlögin sjálf. Þetta er alveg hreint með ólíkindum. Ég sit hér og hlusta á þetta allt saman og þetta verða líklega bara fjárlög 2016, Vigdís Hauksdóttir.