145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er í þeim hópi sem leggur það eindregið til að við frestum núna 2. umr. um fjárlagafrumvarp, gefum fjárlaganefnd í fyrsta lagi tíma til að hvíla sig og í öðru lagi tíma til að taka málið fyrir. Ég held að það sé ekki nóg að prenta upp nefndarálitið heldur eigi að skila framhaldsnefndaráliti þar sem gerð verði (Gripið fram í.) grein fyrir þeim breytingum sem á hverjum degi rignir yfir okkur núna og þær hlaupa ekki á einhverjum smáfjárhæðum, heldur milljörðum. 1,2 í fyrradag, 1,5 í gær, óútkljáð hvað verður gert með Ríkisútvarpið. Ríkisstjórnin stendur áfram í sínu stríði við aldraða og öryrkja og síðan er allt í þoku um það hvernig greiðslur frá kröfuhöfum á grundvelli stöðugleikaframlaga verða meðhöndlaðar í fjáraukalögum þessa árs eða fjárlögum næsta árs. Við slíkar aðstæður er enginn bragur á því að vera að sullast áfram með þetta svona. Þetta eru það miklar sviptingar að ég get tekið undir með hv. þm. (Forseti hringir.) Vigdísi Hauksdóttur: Þetta er að verða einhver undarlegasta fjárlagaumræða sem ég hef tekið þátt í og hún er það vegna þess hvernig ríkisstjórnin og meiri hluti fjárlaganefndar reynast algerlega vanbúin (Forseti hringir.) að ljúka málum með sómasamlegum hætti.